Framkvæmdir
Þann 17. desember fengum við húsið loks afhent. Þá voru framkvæmdir í bílskúrnum enn í fullum gangi til að Óli gæti flutt beint þangað inn, því minna er plássið í húsinu. Svo þurfti að halda jól og afmæli og allskonar en það var svo á annan í jólum sem allt fór á fullt í litla húsinu. Þar þurfti svo sannarlega að taka til hendinni og húsið var vægast sagt í óaðlaðandi ástandi og lyktin var til dæmis viðbjóðsleg svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Allar hurðar dökkar, gluggakarmar voru dökkmálaðir og á gólfum var minnst 20 ára gamalt plastparket sem var allt bólgið og snúið. Við brutum flísar af í forstofu og eldhúsi og rifum parketið af og að því loknu þurfti að flota part af gólfinu. Einnig ákváðum við að færa til hurðaropið á minna herberginu til að hjónarúmið kæmist þar fyrir með góðu móti, svo lítið er það herbergi. Krakkarnir fá nefnilega "hjónaherbergið" í húsinu því þau þurfa jú að deila herbergi á meðan á þessu ævintýri stendur.
Við vorum svo heppin að fá gefins 70-90 fm. af nýtilegu parketi þar sem Harðviðarval var að skipta um gólfefni á búðinni hjá sér og auglýsti gamla parketið gefins gegn því að vera sótt - sem húsmóðirin stökk á húsföðurnum til minni gleði til að byrja með. Skemmst frá því að segja að fyrsta korterið sem hann var að henda parketinu inn í bíl var hann að henda rusli í bílinn að honum fannst, sem var þá bara illa farið parket sem hafði verið rifið upp í lokin, en undan ruslinu komu svo þessar fínu fjalir sem sóma sér vel í litla húsinu í dag. Þar sem parketið er hugsað til bráðabirgða (þangað til húsið verður stækkað) munaði miklu að þurfa ekki að eyða háum fjárhæðum í nýtt gólfefni.
Baðherbergið var í hræðilegu ástandi, nei ég meina hræðilegu ástandi - þannig að þar var allt hreinsað út. Létum duga að mála það og skelltum svo inn nýjum tólum og tækjum. Eldhúsið var þrifið hátt og lágt til að byrja með en mögulega ætlum við að filma innréttinguna eða eitthvað slíkt til að gera það huggulegra, því allt er þetta hugsað til ca. 2+ ára þar sem planið er að byggja við og þar með umbylta öllu. Svo máluðum við allan kofann og fluttum inn þann 7. janúar 2018. Hér má sjá myndir frá framkvæmdaferlinu og næsta færsla verður hinn sívinsæli liður Fyrir / Eftir. Stay tuned!