Upphafið
Allt byrjaði þetta í lok ágúst þegar okkur hjónunum berst til eyrna að lítið og krúttlegt, en þó ekki svo fagurt, einbýlishús á Langholtsveginum væri falt. Eftir pælingar út og suður kom svo í ljós að húsið gæti orðið okkar sem varð svo endanlega frágengið í lok nóvember. Þegar ljóst var að í þetta stefndi fórum við á fullt í byrjun október og seldum Efstasundið á skottíma og staðan er þá þannig, þegar þetta er skrifað, að við fengum bílskúrinn afhentan við kaupsamning þann 25. nóvember, fáum húsið afhent eigi síðar en 17. desember og eigum að afhenda Efstasundið þann 13. janúar. Á tímabili veltum við einmitt fyrir okkur hvort við myndum bókstaflega halda jól í skókassa þar sem það leit jafnvel út fyrir að við myndum afhenda fyrir jól en sem betur fer fór ekki svo, en þá aftur á móti fara jólin í að gera klárt á L31. Stuð.
Planið er að búa í húsinu - öllum 49 fermetrunum fyrst um sinn ("krakkar, þetta verður ekkert mál - bara eins og að búa í sumarbústað... og hversu geggjuð pæling er það? Ha? Þetta verður æði!"), og svo eftir því sem hönnun, byggingaleyfum og framkvæmdum miðar áfram mun húsið enda með að verða ca. 150 fm. glæsibygging á 2 hæðum, mikil götuprýði og í því mun vera frámunalega góður andi og þar að auki mun lóðin skarta stórum og skemmtilegum garði sem mun innihalda allt sem góður garður þarf að innihalda; pall, heitan pott, trampólín, ljónabúr, fótboltamark, fánastöng og svo mætti lengi telja.
Unglingurinn mun þó strax græða þar sem hann mun fá u.þ.b. 16 fm. herbergi með salernisaðstöðu í bílskúrnum. Þannig að núna þessa dagana er Herra píp á fullu að brjóta og bramla gólfið í bílskúrnum til þess að geta svo lagt þær lagnir sem leggja þarf svo hægt verði að flota gólfið í næstu viku og í beinu framhaldi slá upp veggjum, útbúa salernisaðstöðu fyrir Lil' píp (hver man ekki eftir Lil' píp?) og almennt koma unglingnum fyrir. Þetta þyrfti að gerast á mettíma því þegar við fáum húsið sjálft afhent, rétt rúmlega korteri fyrir jól, viljum við leggja allt púður í að gera það skítsæmilegt fyrir okkur hin þannig að flutningar geti farið á fullt á fyrstu dögum nýs árs. Þá erum við að tala um nýtt gólfefni, málningu á veggi, lakka hurðar, bjarga lítt aðlaðandi eldhúsi og reyna lífgunaraðgerðir á viðbjóðslegu baðherbergi (eða baðskáp eins og ég kýs að kalla það og ku vera nýyrði á hraðri leið inn í tungumálið í sívaxandi minimalisma) svo fátt eitt sé nefnt.
Fylgist með því hér fara að raðast inn myndir og fleiri skemmtilegheit eftir því sem verkinu vindur áfram.