Haustið 2017 upphófst nýtt ævintýri hjá okkur fimm manna fjölskyldunni þegar við festum kaup á einbýlishúsi á tveim hæðum með bílskúr og garði við Langholtsveginn í Reykjavík.
Hljómar vel ekki satt?
Hér má sjá höllina sem um ræðir:
Þessi mynd er frá árinu 2013 og er tekin á ákveðnu niðurlægingartímibili í sögu hússins. Enginn hafði hirt um að hlúa að því í einhvern tíma og þarna er það auðsjánlega í söluferli.
Húsið telst í það heila 62,2 fm. og bílskúrinn 40,1 fm. Í húsinu er einnig 13 fm. kjallari sem verður þvottahús og geymsla þannig að íbúðarhæðin er heilir 49 fm.
Til að byrja með búum við til herbergi fyrir unglinginn í bílskúrnum og við hin 4 hreiðrum um okkur í 49 fm. sem verður ekki mikið mál því þolinmæði er einmitt okkar sterka hlið...!
Þessi síða mun innihalda sögur og myndir af ferlinu, alveg frá afhendingu í nóvember 2017 og þegar við hreiðrum um okkur í ársbyrjun 2018 og þangað til við verðum stoltir eigendur tveggja hæða húss sem mun halda utan um fjölskylduna um ókomin ár.